18.12.2018 11:26:00   -  Greinar

Um bókina Kaupthinking- bankinn sem átti sig sjálfur. Höfundur Þórður Snær Júlíusson. Útgefandi Veröld.

Þessa dagana er mikið talað um WOW air flugfélagið. Það er margt líkt með því og brjáluðum vexti bankanna fyrir hrun. Ekkert eftirlitsvald sem hefur eftirlit með flugrekstri er til hér á landi. Það minnir á það sama og gerðist í bönkunum; samfélagið notaði ekki þau fáu tæki sem það hafði til að setja þenslu bankanna skorður. Það var búið að henda öllum tækjum frá okkur, sagði Jón Sigurðsson fyrrverandi Seðlabankastjóri, í samtali við mig í sjónvarpsþætti á Hringbraut fyrir nokkrum misserum.

Meira...

30.11.2018 13:03:00   -  Greinar

Þórunn Jarla Valdimarsdóttir: Skúli fógeti. Útgefandi JPV útgáfa. 

Það er magnað hvað átjánda öldin sækir á. Einlægt verið að skrifa eitthvað forvitnilegt og oft gefin út mikil rit um þennan tíma svakalegra náttúruhamfara og stundum niðurlægingar. Skýrslur landsnefndarinnar sem var hér á árunum 1770-1771 eru stórmerk heimild og afreksverk þeirra sem skrifuðu og svo hennar Hrefnu Róbertsdóttur fyrir að koma ritinu út. Umhugsunarvert er að danski landssjóðurinn skuli hafa lagt í allan þennan kostnað út af Íslandi. Af hverju? Ekki einfaldast málið þegar við hugsum um Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Þar er að finna yfirlit yfir bújarðir og afkomu Íslendinga furðulega nákvæmt að ég segi ekki smámunasamt á köflum. Jarðabókin var unnin á tólf árum 1702-1704. En í nákvæmni sinni voru þeir ekki bara að sinna því sem þeim fannst sjálfum áhugavert. Skipunarbréfið var þrjátíu greinar og allt tínt til; þar átti líka að skoða hvort of miklar kvaðir hefðu verið lagðar á bændur. Friðrik fjórði var ekkert blávatn. Í bók Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur, Skúli fógeti, sem kom út nú á jólavertíðinni, sést einkar vel það sem við höfðum hugmynd um fyrir að dönsk yfirvöld létu sér ekki nægja að láta skrifa skýrslur og taka manntöl sem var þó út af fyrir sig ærið verkefni. Þau létu einnig stórfé til uppbyggingar atvinnnu- og efnahagslífi á Íslandi og til að byggja höll í Viðey. Þessari öld lauk með móðuharðindunum og djöfulskap. Þá datt einhverjum í hug að best væri fyrir fólkið á þessari eyju að fara til Danmerkur og búa þar, á Jótlandsheiðum. Eðlileg hugmynd. Öll þessi saga átjándu aldarinnar um samskipti Íslands og Danmerkur vekur margar margar spurningar. Til dæmis þessa: Af hverju höfðu dönsk stjórnvöld svo mikinn áhuga á Íslandi? Hefur því einhvers staðar verið svarað? Ég bara spyr. Væri gaman að sjá innyflin í danska embættismannakerfinu frá þessari tíð.

Meira...

15.5.2018 09:14:00   -  Greinar

Guðjón Sveinbjörnsson útlitshönnuður Þjóðviljans er dáinn; lést tæplega níræður á dögunum. Hann verður jarðsettur föstudaginn 18.maí kl.13. Útförin verður gerð frá Áskirkju. Kona Guðjóns Símonía Kristín Helgadóttir lifir mann sinn. Þau gengu í hjónaband 19. september 1953.Guðjón hét millinafninu Snókdalín og fæddist 7. des. 1928 í Stykkishólmi. Þau Símonía og Guðjón áttu þrjú börn, þau eru: Jóhanna Sigríður, Sveinbjörn og Ingibjörg Hulda. Ég skrifaði um Guðjón eftirfarandi minningarorð sem birtast í Morgunblaðinu á útfarardaginn.  

Meira...

Hugmynd

Síðan Hugmynd hefur birt flest skrif mín frá árinu 2010. Þangað verður einnig safnað eldri skrifum. Þá verður oft vísað til skrifa annarra. Ekki verður skrifað reglulega á síðu þessa heldur af og til eftir aðstæðum höfundar.-  Ég gaf út heimasíðuna Hugmynd á árunum 1998 – 1999 en og hér gengur hún til móts við nýja framtíð. 

Svavar Gestsson

Bókaskrif

Á þessar síður set ég greinar sem ég skrifa í blöð. Vísa einnig á fésbók þar sem ég set af og til inn einhverjar athugasemdir.

 

Breiðfirðingur 2018 kominn út

Breiðfirðingur 2018 er kominn út. Þetta er fjórða árið undir minni ritstjórn en nánustu samverkamenn mínir eru þeir Haukur Már Haraldsson sem er umbrotsmaður og ljósmyndari og Pétur Ástvaldsson sem er yfirlesari, eiginlega háyfirlesari, les allt. Forsíðan er að þessu sinni mynd af tröllkarli og kerlingu að kyssast. Myndina tók Þorvaldur Björnsson sem taldi fyrir okkur eyjarnar á Breiðafirði um árið. Meðal efnis í ritinu er:
     Birna Lárusdóttir, Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Emily Lethbridge og Guðrún Gísladóttir skrifa um fornminjaskráningu á Staðarhóli í Saurbæ þar sem bjó á þrettándu öld sagnaritarinn mikli Sturla Þórðarson. Árni Björnsson skrifar um huldubyggðir við Breiðafjörð. Þá birtir Breiðfirðingur stórskemmtielga grein eftir Ægi Jóhannsson um Vestur-Íslending sem fór ungur úr Breiðafirðingum: Leitin að Halla frænda heitir greinin.
Í ritinu er önnur grein Hauks Jóhannessonar verkfræðings um jarðhita við Breiðafjörð. Að þessu sinni fjallar hann um jarðhita á Snæfellsnesi en í fyrra skrifaði hann um jarðhita í Vestur-Barðastrandarsýslu. Þá skrifar Kristbjörn Árnason ljómandi grein um foreldra sína, forfeður og formæður. Undirritaður skrifar svo litla afmælisgein um Jón Jónsson frá Ljárskógum.
   Breiðfirðingur er að þessu sinni 150 síður. Ritið kostar 2000 kr. Ódýr bók! Í tölvupóstfanginu bf@bf.is má gerast áskrifandi eða panta ritið.

 

 

Forsíða Breiðfirðings 2018